Á fjármálamarkaði eru gerðar strangar kröfur til fyrirtækja, óháð stærð þeirra og staðsetningu. Lítil fjármálafyrirtæki á Íslandi verða þar af leiðandi að fylgja sömu reglum og regluverki og stærri fjármálastofnanir í Evrópu. Þessu getur fylgt heilmikil fjárfesting og útgjöld enda rík krafa um öryggi og uppitíma kerfa. Fyrir lítil fyrirtæki hér á Íslandi getur verið óhagkvæmt að höndla bakvinnslu þessu tengt hjá sér og því hefur T Plús svarað með því að bjóða fyrirtækjum að útvista slíkri vinnslu til sín. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 og einblínir á að veita framúrskarandi og áreiðanlega þjónustu á sviði fjármálabakvinnslu. Með því að velja að útvista hluta sinnar starfsemi til T Plús, þá fá fyrirtæki aðgang að reynslumiklu starfsfólki, fjölbreyttri þjónustu og geta einfaldað og hagrætt í sínum rekstri.
Viðmælandi okkar er Þórleifur Stefán Björnsson, framkvæmdastjóri T Plús. Hann er með yfirgripsmikla reynslu úr fjármálageiranum og hefur leitt T Plús nánast frá upphafi. Hann brennur fyrir því að gera bakvinnslu og rekstur fjármálafyrirtækja sem auðveldastan og tryggja öruggan og skilvirkan rekstur.
Pappírsdrifnir og óskilvirkir ferlar
Þar sem fjöldi fyrirtækja setur traust sitt á T Plús þarf fyrirtækið að geta verið öruggt um að veita trygga, áreiðanlega og skilvirka þjónustu. T Plús eru, líkt og viðskiptavinir þeirra, mjög háð upplýsingatækni og að ferlar gangi smurt fyrir sig. Eftir nokkur árangursrík ár í rekstri og stöðugan vöxt þar sem fyrirtækið bætti við sig bæði viðskiptavinum og þjónustuleiðum, var orðið ljóst að hægt væri að betrumbæta ferla og gera þá skilvirkari. Pappírsdrifnir ferlar voru hægfara og kerfi voru úr sér gengin og óskilvirk. Tekin var ákvörðun um að bæta og nútímavæða mörg upplýsingatæknikerfi. Nýju kerfin þurftu að vera liprari, gagnsærri og skilvirkari en þau gömlu. En jafnframt örugg. Félagið vildi geta skalað reksturinn auðveldlega til að geta betur fylgt vexti og sveiflum á verðbréfamörkuðum. Mikilvægur hluti í því púsluspili var að uppfæra alla pappírsdrifna ferla og þar var Taktikal í lykilhlutverki.
Lausnin sótt til Taktikal
Fenginn var nýr regluvörður og reglubók félagsins uppfærð og nútímavædd. Til þess að trygga öryggi stafrænna ferla, hafði T Plús samband við Taktikal. Þau höfðu heyrt að önnur fyrirtæki í sama geira væru að nýta lausnir Taktikal og því borðleggjandi að skoða þá lausn fyrst. T Plús valdi að nýta Taktikal SmartFlows til þess að stafvæða sína ferla sem snéru að áreiðanleikakönnunum og öðru regluverki um fjármálamarkaði og gerninga. Hægt var að byggja lausnina á sniðmátum sem eru í boði í SmartFlows og því tók uppsetning stuttan tíma.
Sett var upp heildstætt flæði sem náði yfir alla helstu þætti og var flæðið sett upp í samstarfi starfsfólks Taktikal og T Plús. Nú fara viðskiptavinir í gegnum áreiðanleikakönnun (AML) og MiFID II ferla á einum stað. Innifalin eru skref sem fletta sjálfvirkt upp stjórnmálalegum tengslum og eru skilyrtir reitir nýttir til þess að meta áhættuþætti fyrir hvern og einn viðskiptavin og sjálfvirknivæða skrefin sem koma á eftir. Áður fyrr þurfti handvirkt að fara yfir svör og senda aukna áreiðanleikakönnun ef þurfti. Ef um aukna áreiðanleikakönnun er að ræða, er beðið um tilhlýðileg skjöl og notandi getur hlaðið þeim upp án þess að fara út úr ferlinu. Því getur T Plús fengið allar upplýsingar í einu ferli og verið með öll nauðsynleg gögn frá upphafi.
Að auki fara undirritanir fundargerða og ráðningarsamninga fram með Taktikal. Viðskiptavinir T Plús geta svo nýtt Taktikal til að veita þriðja aðila umboð til umsýslu með sjóði og verðbréf. Allt stafrænt og örugg.
“SmartFlows er algjör snilld að fá. Nú kom upp nýlega að við þurftum að uppfæra ferli vegna þess að breyting varð á FATF reglum. Það tók enga stund að uppfæra og þurfti enga sérhæfða þekkingu eða tímafreka forritun til að kippa því í lag. Það er algjör bylting.” - Þórleifur
Uppsetning Taktikal SmartFlows var í höndum Taktikal sem vann náið með T Plús að uppsetningu út frá forskrift. Nú þegar reynsla er komin á lausnina þá sér starfsfólk T Plús alfarið um uppfærslur og utanumhald SmartFlows flæðanna auk þess að setja upp ný flæði. Tækniþjónusta Taktikal er svo á hliðarlínunni til að aðstoða ef á þarf að halda. Fjármálaeftirlitið hefur kallað eftir gögnum og tekið úttekt hjá T Plús eftir að SmartFlows fór í loftið og ferlið fór í gegn án athugasemda. T Plús eru því mjög ánægð með útkomuna.
Ávinningurinn ljós: meiri hugarró
Með því að setja öll skrefin í eitt, heildstætt ferli hefur sparast tími og upplifun viðskiptavina T Plús af því að hefja viðskipti er betri en áður. Mikill vinnusparnaður er af því að hafa þessa ferla stafræna og færri handtök sem þarf að gera á skrifstofunni. Ákveðin vissa er einnig fólgin í því að geta treyst því að ferlarnir séu í samræmi við lög og hjálpa T Plús að uppfylla þær skyldur sem þau bera sem aðili á fjármálamarkaði.
“Við erum betur í stakk búin að takast á við sveiflur á verðbréfamarkaðnum en áður og skilvirkni hefur sannarlega aukist. En mest munar þó um að öðlast hugarró og að geta treyst því að hlutir séu rétt settir upp og við séum að fylgja reglum og lögum í þaula.” - Þórleifur
Fjármálamarkaðir eru mjög kvikir og síbreytilegir og fyrirtæki sem starfa á þeim markaði þurfa að vera lipur og geta brugðist hratt við breytingum. Fjármálamarkaðir eru að sama skapi útsettir fyrir ströngum reglugerðum og hörð viðurlög við brotum. Því er rík áhætta fólgin í því að hafa hluti ekki í lagi.
Reksturinn hjá T Plús er nú mun þægilegri en áður. Innleiðing Taktikal var hluti af stærri endurnýjun sem gerir fyrirtækið betur undirbúið að bregðast við breytingum á markaðnum. Bæði þegar reglugerðir eru uppfærðar eða þeim breytt en ekki síður til að fylgja sveiflum og vexti á verðbréfamarkaðinum sjálfum. Með Taktikal er auðvelt að halda hlutum við og tryggja öryggi og eftirfylgni og auka á sama tíma skilvirkni.
T Plús er í góðum málum og heldur áfram að vaxa og bæta við þjónustulausnum fyrir smærri og stærri fjármálafyrirtæki á Íslandi og áreiðanleiki er áfram leiðarljós þeirra. Enda vilja T Plús vera fyrsta stopp þegar ný fjármálafyrirtæki íhuga að fara af stað út á markaðinn.
Viltu skoða hvernig Taktikal getur hjálpað þér að sjálfvirknivæða ferla? Sendu okkur línu og við höfum samband.