Tveir lykilstarfsmenn hafa bæst í starfsmannahóp hugbúnaðarfyrirtækisins Taktikal. Ólöf Kristjánsdóttir er nýr markaðsstjóri og Hrafnhildur Sigurðardóttir kemur inn í söluteymið sem lausnastjóri viðskiptalausna (Client Architect). Ólöf mun leiða markaðsmálin og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn. Hún mun halda utan um markaðssókn Taktikal á nýja markaði. Hrafnhildur mun sjá um að vinna með viðskiptavinum að því að innleiða lausnir Taktikal og sinna viðskiptaþróun ásamt því að byggja upp innri ferla og lausnir.
“Við erum spennt og glöð yfir því að fá Ólöfu og Hrafnhildi til okkar í Taktikal. Við gáfum út nýja vöru, SmartFlows, á vormánuðum og það er mikill fengur fyrir okkur að fá reynslubolta eins og þær til okkar til að aðstoða viðskiptavini við að fá hámarksvirði úr lausnum okkar. Með þær innanborðs erum við vel í stakk búin að takast á við ný verkefni og mæta vaxandi tækifærum.”, segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal.
Ólöf kemur frá upplýsingatæknifyrirtækinu Wise og hefur yfir 15 ára reynslu úr hugbúnaðargeiranum. Ólöf var áður hjá Tempo þar sem hún leiddi growth marketing. Hún er með gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Ólöf er einnig formaður WomenTechIceland og hefur setið í stjórn þess frá 2023.
Hrafnhildur er nýlega flutt til Íslands eftir áratug í Kaupmannahöfn þar sem hún starfaði í hugbúnaðargeiranum. Hrafnhildur hefur víðtæka reynslu af viðskiptaþróun og kerfisstjórn viðskiptalausna og starfaði meðal annars hjá Worksome og Falcon.io (nú Brandwatch). Hún er með gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í Management of Creative Business Processes frá Copenhagen Business School. Hrafnhildur var jafnframt meðlimur í Kötlu, félag ungra kvenna í atvinnulífinu með aðsetur í Danmörku.
Báðar hafa þær ríka reynslu af því að vinna hjá hugbúnaðarfyrirtækjum í vaxtarfasa og hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum sem fylgja slíkri uppbyggingu og umbreytingum.
“Taktikal hefur verið að stækka hratt og þróar lausnir sem nýtast viðskiptavinum vel og þeir elska. Ég er spennt að takast á við nýjar áskoranir hjá Taktikal og taka þátt í framtíðaruppbyggingu.”, er haft eftir Ólöfu.
“Taktikal hefur verið að gera flotta hluti og er á spennandi stað. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að lausnirnar nái frekari útbreiðslu og brenn fyrir því að hjálpa viðskiptavinum að finna snjallar lausnir sem leysa vandamál þeirra.”, segir Hrafnhildur.
Um Taktikal
Taktikal hjálpar fyrirtækjum að endurhanna og sjálfvirknivæða ferla fyrir rafrænar undirskriftir er skila sér í hraðari afgreiðslu, hagkvæmni í umsýslu skjala, minni rekstraráhættu og betri upplifun viðskiptavina. Taktikal hefur í þrjú ár verið valið sú lausn í rafrænum undirskriftum með hæstu ánægju viðskiptavina samkvæmt stjórnendakönnun Maskínu.