Taktikal er stoltur viðtakandi Jafnvægisvogarinnar 2024, en hún er veitt fyrirtækjum og stofnunum sem hafa náð að minnsta kosti 40/60 kynjahlutfalli í framkvæmdastjórn. Taktikal er þar í hópi 130 annarra aðila sem hljóta heiðurinn í ár. Jafnvægisvogin var fyrst veitt árið 2018 og hefur það markmið að jafna kynjahlutföll í efstu stjórnunarstöðum fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Markmið verkefnisins er að 40/60 kynjahlutfall verði náð í framkvæmdastjórnum.
Sýnilegur árangur en betur má ef duga skal
Jákvæð þróun hefur orðið þar sem fyrirtækjum sem hljóta Jafnvægisvogina fjölgar verulega. Þegar Taktikal fékk síðast þessa viðurkenningu voru 76 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög meðal viðtakenda, en nú er fjöldinn orðinn 130. Þrátt fyrir að árangur sé sýnilegur er enn langt í land. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur hækkað á síðasta áratug, en nú hefur dregið úr þeirri þróun. Áætlað er að 40/60 hlutfall í stjórnum fyrirtækja á Íslandi náist ekki fyrr en árið 2048 með þessu áframhaldi.
Fjölbreytni leiðir til betri árangurs
Hjá Taktikal leggjum við ríka áherslu á fjölbreytni, enda hafa rannsóknir sýnt að fjölbreytni leiðir til betri ákvarðanatöku, betri vinnustaðamenningar og aukinnar afkomu. Við kappkostum að tryggja fjölbreytni á öllum sviðum – hvort sem það er innan vinnustaðarins, í notendaprófunum eða í markaðsefni okkar, þar sem konur og kvárar eru á meðal þeirra sem eiga rödd.
Við erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu og hvetjum önnur fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til að auka jafnrétti á íslenskum vinnumarkaði. Jafnrétti er ákvörðun.