Taktikal hlýtur styrk frá Tækniþróunarsjóði

Taktikal hefur hlotið 20 milljón króna verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís.

Styrkurinn er veittur til þróunar á „on-boarding“ kerfi Taktikal sem miðar að því að hjálpa þjónustuaðilum að fá einstaklinga og lögaðila í viðskipti með einföldum rafrænum hætti. Styrkurinn er veittur til 2 ára frá árunum 2018- 2020.

„Styrkurinn er mikil viðurkenning á því starfi sem við hjá Taktikal höfum unnið að hörðum höndum s.l. 1 ár og mun gera okkur kleift að setja meiri kraft í þróunavinnu okkar í rafrænum viðskiptaferlum fyrir lausn sem mun í nánustu framtíð gera fólki kleift að spara sér margar óþarfa bílferðir, útprentanir og tölvupóstsendingar þegar þarf að ganga frá pappírum.“ - Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal

Auk Taktikal voru 62 verkefnum boðnir verkefnisstyrkir fyrir allt að 700 milljónum króna. Alls voru umsóknir 377 sem er 17% aukning frá sama tíma í fyrra.

Um Tækniþróunarsjóð

Tækniþróunarsjóður heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Sjóðnum er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt er að auka fjölbreytni atvinnulífsins og hraða uppbyggingu þekkingar- og hátæknistarfsemi. Stjórn Tækniþróunarsjóðs telur sjóðinn mæta þessum sjónarmiðum með því að skilgreina nýjar áherslur í samræmi við hlutverk sjóðsins.

Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður. Umsóknir eru metnar af fagráði sem leggur til ráðgefandi álit um styrkveitingu til stjórnar sjóðsins. Stjórn Tækniþróunarsjóðs tekur endanlega ákvörðun um úthlutun.