Taktikal hlýtur viðurkenningu Vaxtarsprotans

Taktikal hefur hlotið viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir öflugan vöxt á meðal sprotafyrirtækja. Ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Taktikal hlaut viðurkenninguna fyrir vöxt í þjónustuhönnun fyrir rafrænar undirritanir og aðra traustþjónustur en Taktikal hefur þróað lausnir sem auðvelda þjónustuveitendum innleiðingu og rekstur á rafrænum undirskriftum á sveigjanlegri hátt en áður.

Auk Taktikal hlutu tvö önnur fyrirtæki einnig viðurkenningar fyrir vöxt. Carbon Recycling International sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fékk viðurkenningu sem Vaxtarsproti ársins. Kerecis fékk einnig viðurkenningu, en Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi.

Um Vaxtarsprotann

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 13. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Salóme Guðmundsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

Meðal fyrirtækja sem hafa hlotið Vaxtarsprotann:

  • 2007 Marorka
  • 2008 Mentor
  • 2009 Mentor
  • 2010 Nox Medical
  • 2011 Handpoint
  • 2012 Valka
  • 2013 Meniga
  • 2014 DataMarket
  • 2015 Kvikna
  • 2016 Eimverk
  • 2017 Kerecis
  • 2018 Kaptio