Taktikal valið til þátttöku í Mastercard Lighthouse

Taktikal hefur verið valið til þátttöku í hinu virta Lighthouse verkefni Mastercard. Fyrirtækið er þar í góðum hópi annarra frumkvöðlafyrirtækja í fjártækniiðnaðinum frá Norðurlöndunum og Eystrasaltinu. 

Lighthouse Mastercard miðar að því að virkja tengslanet á milli banka, fjártæknifyrirtækja og Mastercard og efla nýsköpun í fjártæknigeiranum. Verkefnið stendur yfir í fjóra mánuði og lýkur í desember 2024. Alls taka 15 fyrirtæki frá sex löndum þátt í verkefninu en þau voru valin úr stórum hópi umsækjenda. Þrjú fyrirtækjunum sem standa sig best á tímabilinu fá að taka þátt í að kynna sína úrlausn á lokadegi verkefnisins í Stokkhólmi og af þeim verður eitt fyrirtækið valið sigurvegari. Sigurvegarinn fær tækifæri til að kynna sig á alþjóðlegum frumkvöðladegi Mastercard og möguleikann á samstarfssamningi við Mastercard. 

“Það er okkur mikill heiður að hafa verið valin til þátttöku og þetta er mikil viðurkenning á okkar starfi. Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur til komast í samband við fleiri samstarfsaðila og efla okkar tengslanet og mun án efa hjálpa okkur að halda áfram að vaxa og sækja á nýja markaði”, segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal. 

Markmið Mastercard með verkefninu er að tengja saman nýsköpunarfyrirtæki í fjártækni við stærri aðila á markaðnum og þannig styrkja og styðja við iðnaðinn í heild. Taktikal er þriðja fyrirtækið frá Íslandi sem er valið til þátttöku. Áður hafa Yay og Indó tekið þátt árið 2021.